UM FÉLAGIÐ
Skautafélagið Jökull
Skautafélagið Jökull var stofnað í Janúar 2021 eftir nokkurra mánaða undirbúningsvinnu.
Hugmyndin hefur þó verið til í mörg ár og var loksins ákveðið að setja verkefnið af stað.
Hugmyndin með þessu nýja félagi er að endurvekja gamla grein og bjóða upp á æfingar
í samhæfðum skautadansi sem var stundað hér á landi árum áður, en mikill missir hefur verið af greininni.
Ætlunin er þó ekki að stofna til samkeppni við hin félögin heldur auka fjölbreyttni og bjóða uppá íþrótt sem gefur möguleika á áframhaldandi skautaiðkun.
Til að byrja með er aðal áherslan lögð á unglingastarf og er markmiðið að reyna að grípa þá iðkendur sem hafa nýlega dottið úr íþróttinni, en mikið brottfall hefur verið síðastliðin ár. Með þessu vonum við að geta boðið upp á meiri tækifæri innan íþróttarinnar og hækkað meðal aldurinn en hann er nú í sögulegu lágmarki hér á landi.
Brottfall unglingsstúlkna áhyggjuefni
Brottfall unglingsstúlkna úr íþróttum hefur löngum verið áhyggjuefni og hefur íþróttahreyfingin lagt áherslu á að ráða bót á því undanfarin ár. Ein leið að því marki er að gefa unglingum kost á fjölbreyttri íþróttaiðkun.
Samhæfður skautadans byggir á sama grunni og listhlaup á skautum en þrátt fyrir það eru greinarnar gjörólíkar. Báðar reyna þær á þætti sem ekki koma fyrir í hinni greininni og þar sem boðið er upp á báðar greinar geta skautarar valið þá grein sem hentar þeim betur.
Jafnframt því að auka fjölbreytni innan skauta íþrótta er samhæfður skautadans þeim kostum gæddur að iðkendur geta náð hápunkti ferils síns eftir unglingsaldur. Framfarir takmarkast ekki við ungan aldur og er meðalaldur þar af leiðandi mun hærri en í listhlaupi á skautum.
Með stofnun nýs félags erum við að vonast til að geta boðið upp á fleiri möguleika og auka fjölbreytni innan íþróttarinnar hér á landi og vonandi ná að sporna við því mikla brottfalli sem hefur verið síðustu ár. Meðalaldur innan skauta íþrótta hér á landi hefur farið lækkandi undanfarin ár sem er áhyggjuefni. Með aukinni fjölbreytni eru meiri líkur á að íþróttin haldi lengur í iðkendur. Þar með aukast líkurnar á að íþróttin eignist fleiri þjálfara, dómara og tæknifólk í framtíðinni.